Ávarp á samstöðufundi með Grikkjum 5.júlí 2015

Kæra fólk, kæru félagar,

þegar þú sáir fátækt uppskerðu bræði stóð á borða sem anarkistar gengu með í gegnum auðmannahverfi Aþenu fyrir nokkrum dögum síðan.

Ég ætti náttúrlega að byrja á að segja eitthvað um bræði, en ég þarf að segja eitthvað um tölur; því nútíminn er endalaus upptalning á tölum og prósentum, í stað þess að leyfa bræðinni að vaxa erum við alltaf að eitra fyrir henni með tölum, bræði er aldrei auðmjúk en í auðmýkt reynum við að sýna fram á réttmæti málstaðarins með því að vera alltaf að telja upp prósentur og upphæðir og tölur, vegna þess að þau sem stjórna lífi okkar hafa ekki áhuga né skilning á neinu nema tölum og í vesældómi okkar þyljum við tölulegar staðreyndir upp eins og bænir, til að sanna að við séum með fullu viti, að við vitum um hvað við séum að tala, í þeirri von að þau fari að hlusta, bænheyri okkur, eins og þau séu með fullu viti, eins og þau séu rökrænar verur sem sé aðeins annt um að allir útreikingar séu réttir, og allar niðurstöður einu réttu niðurstöðurnar:

Árið 2010 voru skuldir Grikklands 310 milljarðar evra, eða 133% af vergri landsframleiðslu. Í dag, eftir alla björgunina, öll þessi ár af aðstoð og góðvild troikunnar, eru skuldir gríska ríkisins 317 milljarðar evra sem er meira en 310 milljarðar.

Minna en 10% af upphæð björgunarpakkans hefur runnið til grísks almennings, á meðan 90% hafa runnið til þátttakenda á evrópskum fjármálamarkaði, evrópskra banka, vogunarsjóða, lífeyrirssjóða og annarra fjárfesta.

Milljónir Grikkja lifa nú í fátækt vegna kreppunnar og treysta á hjálparstofnanir til að komast af. Atvinnuleysi í Grikklandi er meira en 25% og næstum tvö af hverjum þremur ungmennum eru atvinnulaus.*

Eftir fimm ár af björgun er þá svona komið fyrir Grikkjum?
Ef þetta er pakkinn til mín, mætti ég þá kannski afþakka gjöfina?

Á bak við þessar tölur er svo hin mannlega upplifun þeirra sem lifa í samfélagi sem lagt er í rúst, upplifun sem bara er hægt að mæla með empatíu sem er mælieining sem þau sem ná mestum frama og rísa hæst í samfélögum þjóðanna virðast ekki kunna svo vel á; angistin, þunglyndið, sorgin, missirinn, niðurlægingin, hin tæra og ofsafengna örvænting sem fær fólk til að vilja hætta að anda, sem fær fólk til að leysa vandamálið sig sjálft með endalausn.

Á bak við þessar tölur er upplifunin að hafa haldið að þú værir einhvers virði en fatta svo að þú ert einskis virði, einungis til ama, bara drösull og þyrnir og byrði á Angelu Merkel og Christínu Lagarde og Martin Schulz og Mario Draghi og Jean Claude Juncker.

Að upplifa að veröldin þín er svo lítils virði að það er best að segja frá henni svona:

Sjáðu, hér er tilvera þín og sjáðu, hér er svarthol og sjáðu, nú ert þú ekki lengur hér, heldur inní þessu svartholi og það þýðir ekkert að fást um það því eins og allir vita er ekki hægt að ná í það sem hefur sogast inní svarthol.

Undanfarið hefur nútíminn verið upplifun og æfing í því að skilja að nei þýðir já, já eins og þú meinir það, þegar þú meinar það alls ekki.

Æfing í því að skilja að nei-in þín þýða einhvernveginn alltaf já:

Hvað segirðu um að gera innrás í þetta land þarna? Nei.

Ok, I’ll take that as a yes!

Hvað segirðu um að gefa þessu ríka fólki restina af smáræðinu sem þú átt? Nei…

Heyrðu ok frábært, flott já.

Hvað segirðu um að einkvæða þetta heilbrigðiskerfi hér? Nei, ég vil það alls ekki!

Æðislegt, gott að heyra svona skýrt já!

Hvað segirðu um að sprengja þessa flóttamenn þarna bara í tætlur? Guð minn góður, nei!

Töff, þá byrjum við bara á því fljótlega.

Hvað segirðu um að leggja landið þitt í rúst, virkilega ganga frá því, hvað segirðu um að gefa ömmu þinni ekkert að borða, hvað segirðu um lækka launin þín um helming, hvað segirðu um að það sé alltaf rafmagnslaust heima hjá þér, hvað segirðu um að allir sem þú þekkir séu alltaf á bömmer, hvernig lýst þér á það?

Einhver kínversk mótmælakona, hún Dai Qing, alþýða og verkalýður, sagði þegar hún mótmælti byggingu risastíflu sem eins og svarthol lagði heimili hennar, veröld hennar í rúst: Æðstu tjáningu á mannlegri reisn má draga saman í eitt orð: Nei.

Við erum öll búin að vera segja nei lengi, allavega síðan Zapatistarnir komu niður úr fjöllunum, en þau hafa ekki hlustað, þau hafa bara brosað til okkar og blikkað og gefið okkur high five, eins og við værum bestu vinir, eins og við værum öll að fara í sama partý.

Í nei-inu er mannleg reisn fólgin, nútíminn á engar hetjur, en í nútímanum getur það verið nokkurskonar hetjudáð að segja nei þannig að það heyrist, nei þannig að skiljist, nei þannig að þau hætti að láta eins og við séum öll vinir, öll á leið í sama partý, nei þannig að þau skilji að partýið þeirra gæti jafnvel orðið leiðinlegt, gæti jafnvel endað illa, ekki bara fyrir vesalingana sem vinna við að þrífa upp draslið, heldur fyrir þau sjálf, nei þannig að þau fatti að það er kannski kominn tími til að þau hætti að skemmta sér á kostnað annarra.

Þegar Grikkirnir sögðu ok, fokk it, kjósum bara um þetta, sá maður að þeim brá, þau urðu satt best að segja hrædd, hrædd við þetta gríska nei, þetta oxi sem við kunnum öll allt í einu að segja, þau eru hrædd við oxi, hrædd um að Spánverjar segji það, Portúgalir, að við verðum öll eins og Zapatistar á leiðinni niður af Ólympusfjalli, sameinuð í nei-inu, hinu alþjóðlega, alltumlykjandi risastóra Oxi.

Ég hefði náttúrlega átt að tala bara um bræði, ég geri það núna:

Þegar þú sáir fátækt, uppskerðu bræði, þegar þú sáir óréttlæti uppskerðu bræði, þegar þú sáir arðráni uppskerðu bræði, þegar þú neyðir viðbjóðsleg neóliberal já oní fólk og þykist ekki taka eftir uppköstunum uppskerðu á endanum risastórt og æðisgengið nei bræðinnar.

Ég vona og þrái að Grikkir segi nei í dag, því nei-ið þeirra mun enduróma um heimsbyggðina, ákall til almennings um upprisu, staðfesting á því að kapítalistarnir og útsendarar þeirra eiga okkur ekki, eiga ekki orðin okkar, geta ekki hlekkjað okkur, að þessum endalausu árásum þeirra á almenning, þessum endurbætum þeirra á lífi okkar skal og mun ljúka, endalok arðránsins eru runnin upp.

Að lokum: við skulum sameinast í slagorða ópi, á ensku, bæði vegna þess að þá skilja það allir, og líka afþví að mér datt ekkert nógu í smart í hug sjálfri:

From Iceland to Greece, no justice, no peace!

Takk fyrir!Tags: GrikklandEfnisflokkar: AlþjóðamálEvrópusambandiðRæður